Um okkur 

Á bakvið Hraust erum við, Agnes og Kara, sjúkraþjálfarar með brennandi áhuga á að hjálpa konum sem upplifa sig týndar í eigin líkama.

Það breyttist svo miklu meira en við áttum von á þegar börnin okkar komu og einhvern veginn fundum við ekki aftur taktinn í hreyfingu eftir meðgönguna og fæðinguna. Háskólagengnar í stoðkerfinu en samt ennþá með skrítna verki sem jukust við hreyfingu og sífellt minni trú á að líkaminn myndi nokkurn tíman jafna sig almennilega aftur.

À endanum ákváðum við að reyna að leggjast yfir þetta sjálfar. Markmiðin skýr: geta farið út að hlaupa aftur án þess að uppskera verki og orkuleysi marga daga á eftir og að geta lyft lóðum án þess að þurfa að spretta á salernið á miðri æfingu.

Síðan þá erum við búnar að læra mikið. Grindarbotnsæfingar, kviðæfingar og hvernig við mýkjum og styrkjum líkamann á hraða sem er raunhæfur fyrir okkur. En ekki síður hversu mikilvægt það er að hlúa að andlegu líðaninni. Hvernig við þurfum að fara í gegnum allar erfiðu tilfinningarnar sem fylgja barneignum og að sýna okkur sjálfum þolinmæði og skilning. Þjálfa okkur í að vera meðvitaðari um eigin líðan og að mæta okkur af mildi á þeim stað sem við erum hverju sinni. Skoða hvaðan óraunhæfu kröfurnar sem við setjum á okkur eru komnar og æfa okkur í því að  draga úr heildarálaginu. Vinna úr àföllum sem senda líkamann endurtekið inn í streituástand og taka eftir varnarmynstrum sem við höfum komið okkur upp.

Svo út úr tilraun til þess að setja saman þokkalegt æfingaprógramm spratt risastór hugarfarsbreyting sem hefur núna á nokkrum árum náð til þúsunda kvenna í svipuðum sporum og við vorum.

Í dag er Hraust orðið að samfélagi kvenna sem hafa tekið àkvörðun um að hætta að rembast á móti líkamanum sínum og að æfa sig frekar í að vera með líkamanum í liði. Konum sem hafa valið að sýna sér skilning frekar en dómhörku og að æfa sig í að mæta sér af mildi í öllu því sem lífið sendir til þeirra.

Það gerast magnaðir hlutir um leið og við ákveðum að nálgast hlutina öðruvísi en við höfum gert áður.