Um okkur

Agnes Ósk Snorradóttir & Kara Elvarsdóttir

 

Eftir að hafa unnið í nokkur ár sem sjúkraþjálfarar áttuðum við okkur á því að lífið er ekki jafn einfalt og okkur var kennt í skólanum. Líkaminn er ekki bara bein, liðir, vöðvar og æfingar til þess að laga heldur svo miklu, miklu flóknari. Og með tímanum fórum við að geta grisjað út fólk strax í fyrsta viðtali sem ekki myndi ná árangri í sjúkraþjálfun hjá okkur.

Fólk sem hafði hreinlega of mikið á sinni könnu til þess að geta einbeitt sér að litlum smáatriðum, sem trúði því heitt og innilega að þeim væri ekki viðbjargandi, að líkaminn væri á einhvern hátt skemmdur eða gallaður, að heyfing væri bara salt í sárin, að enginn gæti hjálpað þeim að finna lausn vandamála sinna, að það væri nú þegar búið að prófa allt - nú væri bara að læra að lifa með ástandinu.

Við vitum það öll að hreyfing gerir okkur gott og þegar við erum í jafnvægi þá er lítið mál að hreyfa sig reglulega og að hlúa vel að sér. Það er hins vegar þegar "lífið gerist" og það þyrmir yfir okkur sem hlutirnir fara virkilega að flækjast og einn lítill göngutúr getur orðið að óyfirstíganlegu verkefni. Og þegar skrefin fara að verða þung er snjóboltinn oft fljótur að fara að rúlla og hreyfingaleysi getur breyst í stoðkerfisverki og stoðkerfisverkir geta breyst í andlega vanlíðan (eða öfugt eða allt í bland) og það sem var áður tímabundið ástand í kjölfar erfiðs tímabils í lífinu verður að langvarandi greiningum og stimplum sem smjúga inn í innsta kjarna.

Og það er risastórt verkefni að breyta sannleikanum sínum. Af því að sorglega staðreyndin er sú að ef við virkilega trúum því að það sé eitthvað að okkur að þá fer líkaminn að trúa því líka og hjálpar okkur við að staðfesta grun okkar í sífellu.

Þegar við sjálfar upplifðum okkur svo á þessum stað eftir að hafa gengið með börnin okkar og farið í gegnum áföll sem settust að í líkamanum fór áhuginn á óhefðbundum lausnum að kvikna fyrir alvöru. Svo við fórum að reyna að hugsa út fyrir kassann. Eitthvað hlyti að vera hægt að gera fyrir hópinn sem kerfið hafði stimplað út - og alla aðra ef út í það er farið sem fyrirbyggjandi meðferð.

Og eftir að hafa lesið alls konar efni, grisjað út það sem okkur fannst gáfulegt, gert tilraunir á sjálfum okkur og prófað að setja út okkar nálgun á efninu fórum við að sjá mynstur sem var að virka. Og allt gekk það út á að gangast við því að við erum tilfinningaverur sem bregðumst við öllu því sem lífið sendir til okkar. Að tilfinningalegt ástand okkar veldur líkamlegum viðbrögðum og hefur áhrif á það hvernig við hegðum okkur í daglegu lífi. Og að stundum erum við bara alls ekki með það á hreinu hvað er best fyrir okkur þegar lífið verður flókið.

Þannig í staðin fyrir að finna leiðir til þess að hámarka árangur okkar sjálfra og þeirra sem leituðu til okkar færðum við fókusinn yfir á það að gangast við okkur á öllum tímabilum lífsins og að læra að sýna okkur mildi þegar lífið verður einhvern vegin öðruvísi en við höfðum séð fyrir okkur. Að geta sett nafn á tilfinningar okkar, að taka eftir líkamlegum viðbrögðum, að fá gagnleg verkfæri í hendurnar til þess að koma kerfinu inn í betra jafnvægi og geta þannig brugðist betur við þeim aðstæðum sem koma upp. Að treysta því að við séum alltaf að gera okkar besta miðað við aðstæður og að okkar besta geta litið út á milljón mismunandi vegu.

Og síðastliðin þrjú ár hefur samfélagið okkar byggst hratt upp og við höfum fengið að fylgjast með fullt af yndislegum konum upplifa það sama og við gerðum á okkar vegferð í átt að betri líðan. Við höfum séð hvernig ljósaperurnar kvikna hver af annarri þegar boðskapurinn fer að sígjast inn, hvernig konur finna innri drifkraftinn sinn aftur til þess að hlúa að sér og hvernig þær fara að taka ábyrgð á heilsunni sinni og raða sér efst á lista án þess að upplifa það á nokkurn hátt sem sjálfselsku eða kvöð. Hvernig þær fara að skilja sig betur, ná að tengjast innsæinu sínu, verða gagnrýnar á það sem umhverfið segir þeim og hvernig þær verða sérfræðingar í eigin líkama.

Eitthvað sem er algjörlega ólýsanlegt að verða vitni að og gefur svo hlýtt í hjartað 💛