Mömmutímar

Miðvikudögum / föstudögum kl. 13:00-13:40
Í salnum okkar á Nýbýlavegi 6

 

Fljótlega eftir fæðinguna búast flestar konur við því að endurheimta líkamann sinn án vandræða en ranka margar við sér í breyttum líkama sem þær eiga erfitt með að tengjast og skilja.

Við vorum nákvæmlega þarna eftir að við urðum mömmur. Týndar í líkama sem vann ekki með okkur og í stöðugum rembingi við að halda í það sem hentaði okkur áður en við urðum óléttar. Við vorum vonsviknar út í líkamann og áttum erfitt með að treysta honum. Upplifðum okkur á tímabilum hálf "gallaðar".

Það tók okkur nokkur ár að átta okkur á því að það sem við upplifðum er fullkomlega eðlilegt. Að það er eðlilegt að meðgangan taki toll á líkamanum, að það taki tíma að byggja sig aftur upp og ennþá lengri tíma þegar maður er með ungabarn á handlegg allan sólarhringinn. Í 9 mánuði ráðstafaði líkaminn orkunni í að hjálpa litla barninu að vaxa og dafna og breytti meira að segja líkamsstöðunni til þess að búa til meira pláss fyrir barnið. Okkur finnst því meira en sjálfsagt að þú leyfir þér að taka að minnsta kosti 9 mánuði í að byggja þig aftur upp og verða aftur þ ú  s j á l f.

Endurhæfingarprógrammið okkar hefur verið í stöðgri þróun undanfarin ár og byggir á því að hjálpa þér að æfa í meðvitund og að veita smáatriðunum athygli svo þú getir aftur hoppað, hlaupið og hreyft þig eins og þig langar til.  Við teygjum og nuddum vöðvana sem stífnuðu upp á meðgöngunni, virkjum aftur djúpvöðvakerfið, styrkjum vöðvana sem rýrnuðu og flæðum svo í gegnum mjúkar æfingar, öndum og róum niður taugakerfið. Við bjóðum mömmur sem glíma við grindarbotnsvandamál, finna fyrir verkjum í mjaðmagrind og/eða baki sérstaklega velkomnar í hópinn. 

Mömmutímarnir henta bæði þeim sem eru að taka sín fyrstu skref í hreyfingu eftir meðgönguna en líka þeim sem eru núþegar komnar af stað en vantar að skerpa á grunnatriðunum. Við kennum í litlum hópum og höfum því töluvert svigrúm til þess að veita einstaklingsmiðaðar ráðleggingar. 

Börn eru velkomin með í tímana. Við mælum með því að þú mætir 5-10 mín fyrir tíma þegar barnið er með því oft tekur smá tíma að gera alla klára fyrir æfinguna. Í salnum erum við með mjúk leikteppi en börn eru hvött til þess að koma með leikföng að heiman. Gott er að hafa í huga að koma frekar fyrr heldur en seinna til okkar á orlofstímabilinu þar sem það getur verið krefjandi að æfa og einbeita sér þegar barnið er komið á fleygi ferð.