Sjálfsmyndarkrísa á meðgöngu

Frá því ég man eftir mér hef ég þótt dugleg, klár, samviskusöm, sjálfstæð, þægileg, jákvæð og brosmild. 

Ólétt af eldri stráknum mínum hélt ég uppteknum hætti. Ætlaði að eiga fullkomna upplifun af óléttu. Borða hollt, halda áfram að hreyfa mig eins og ég gerði, vinna a.m.k. þar til mánuði fyrir settan dag, gera heimilið meira kósý.


Með öðrum orðum: Halda algjörlega mínu striki í lífinu þrátt fyrir óléttu og meira til.


En löngu áður en það fór að sjást á mér að ég væri ólétt skall blákaldur raunveruleikinn á. Endalaus þreyta, skrítnir verkir í mjaðmagrindinni við það sem mér fannst minnsta álag, líkami sem ekki lengur lét bjóða sér lífsstíl konunnar sem heldur öllum boltum á lofti. Líkami sem ekki hagaði sér í takt við mín rótgrónu gildi.


Ég grét yfir því að ráða illa við líkamleg verk í vinnunni, yfir því að geta varla haldið mér vakandi á sófanum eftir vinnu, yfir því að fá mjaðmagrindarverki við að bera upp pokana úr búðinni. Ég var sár út í líkamann minn fyrir að bregðast mér og túlkaði það sem svo að kannski væri líkaminn minn ekki hannaður fyrir það að ganga með börn. Allt í kringum mig voru konur sem elskuðu að vera óléttar og framan á blöðunum frásagnir af konum sem lyftu þungum lóðum fram á síðasta dag. Það hlaut að vera eitthvað að mér bara.


Svo ég hélt áfram að rembast á móti líkamanum. Það var enginn búinn að leyfa mér að draga úr álagi og fyrir utan það var planið að vera góð í því að vera ólétt. Ég gat ekki farið að játa það að ég væri þreytt, að ég skildi ekkert í líkamanum mínum, þyrfti aðstoð og að megnið af tímanum væri ég neikvæð og grátandi. Það var ekki "ég". 


Alveg þangað til einn daginn þegar ég dró kærastann út í langan göngutúr að líkaminn sagði stopp. Klemmd taug í bakinu og ég gat ekki stigið í fótinn í mánuð. Drastískar aðgerðir til þess að koma mér í hvíld.  Koma mér í hvíldina og sjálfsvinnuna sem ég þurfti.


Þegar ég lít til baka núna finn ég ekki fyrir neinu nema þakklæti í garð þessa tímabils. Tímabil sem hrissti upp í mér, þroskaði mig og lét mig endurskoða það hvernig ég horfi á lífið. Tímabil sem kenndi mér að taka heilsunni ekki sem sjálfsögðum hlut og mikilvægi þess að hlusta á líkamann. Tímabil sem hjálpaði mér að skilgreina ekki eigið gildi út frá því sem ég kem í verk. Hjálpaði mér að sjá að það sem skiptir mig mestu máli í lífinu er að vera með heilsu til þess að geta hugsað um börnin mín.


Á seinni meðgöngunni slóst ég svo í hóp kvenna sem elska að vera óléttar. Ekki afþví ég elskaði óléttuna sem slíka heldur útaf öllu því sem hún færði mér.
Annan einstakling sem ég elska út af lífinu, þakklæti fyrir það sem líkaminn er megnugur um, betri tilfinningu fyrir því sem gerir mér gott og því sem dregur úr mér, þakklæti fyrir allt góða fólkið í kringum mig sem er tilbúið að stökkva til þegar ég þarf á því að halda.


Hugarfarsbreyting sem heldur áfram að gagnast mér eftir meðgönguna og gerir mér auðveldara að draga úr vinnu, hvíla mig, biðja um hjálp, hitta vinkonur, hreyfa mig reglulega og borða hollt að staðaldri. Púsla lífinu þannig að ég hafi eins mikla orku og mögulegt er til þess að knúsa litlu strákana mína - á góðu dögunum og þessum meira krefjandi.


Núna finnst mér ég komin á fullkomna staðinn. Staðinn þar sem ég tek eftir því þegar ég geng á eigin mörk og endurskoða svo taktinn í lífinu - helst heima á sloppnum. Brýt mig ekki lengur niður fyrir að ná ekki jafnvægi á lífið í fyrstu tilraun, lít á það sem eðlilegt að þurfa stöðugt að vera opin fyrir breytingum.