Mistökin sem ég gerði eftir fæðingu

Ég var ekki alveg búin að ná utan um það að líkaminn minn hefði breyst eftir að ég átti fyrsta barnið mitt. Hafði aldrei heyrt neinn tala um að það gæti gerst og var það ný í bransanum að ég hafði ekki vit á því að spyrja. Ég fylgdist með blóðþrýstingnum, þyngdaraukningunni og óþægindunum í kringum mjaðmagrindina á meðgöngunni en aldrei nokkurn tíman hefði hvarflað að mér að fylgjast með djúpvöðvaspennunni, liðleikanum í kringum mjaðmirnar, stöðunni á hryggnum eða streitustiginu.

Fyrstu mánuðirnir eftir fæðingu fóru í að læra inn á glænýja strákinn minn sem varð fljótt vansæll og ómögulegur - með magakveisu sagði ljósmóðirin. Ég man ekki mikið eftir þessu tímabili. Líklega líffræðin að passa upp á það að ég gæti hugsað mér að eignast annað barn þegar þessu mókatímabili lyki. Ég get vottað fyrir það að aldrei nokkurn tíman hef ég verið jafn illa sofin á ævinni. Missti matarlystina, gleymdi að borða og léttist um tæplega 15 kg. Var með innilokunarkennd ein heima að rugga vansælu barni en samt of buguð til þess að eiga félagsleg samskipti eða að hreyfa mig. Tilfinningin fyrir líkamanum gjörsamlega horfin og ástandið orðið vel svæsið þegar loksins fór að vora og ég gat farið að komast út - yfirleitt með barnið á handlegg og keyrandi kerruna með hinni.

Mig langaði svo að fara að hreyfa mig aftur. Áður en ég varð ólétt hjólaði ég flesta daga í og úr vinnu og kom oft við í ræktinni á leiðinni heim. Þetta var algjörlega mín stund, ein með tónlistina í eyrunum að njóta þess að hreyfa líkamann minn. Við vinkonurnar sem vorum saman í orlofi þetta sumar peppuðum hvor aðra út í göngutúr og æfingar sem við höfðum verið vanar að gera fyrir börn. Samvera sem bjargaði andlegu heilsunni gjörsamlega en líkaminn var alltaf hálf ómögulegur eftir á og þreytan ekkert að minnka. Ég fann ennþá fyrir keimlíkum grindarverkjum og á meðgöngunni og skyldi ekki alveg hvað ég var að gera rangt. Byrjuð að hreyfa mig en samt svo tæp í líkamanum.

Ég vildi stundum að ég ætti tímavél svo ég gæti farið aftur í tímann og knúsað frumbyrjuna mig. Sagt henni að líkaminn hefði breyst, stífnað sums staðar upp og einhverjir vöðvar í minni tengingu. Streitukerfið væri á milljón að sjá til þess að hún hefði orku til þess að hlúa að litla magakveisustráknum. Að það væri fullkomlega eðlilegt að hún réði ekki við samam álag og áður og að hún þyrfti að hugsa sérstaklega vel um sig á meðan þetta krefjandi tímabil liði hjá. Draga úr álagi, bjóða vinkonum heim í sloppapartý, gera léttari æfingar, fá hjálp með barnið, sofa stundum á sófanum, fara ein út úr húsi á hverjum einasta degi. Hlusta á líkamann og lækka kröfurnar.

En í staðinn byrjaði ég að rembast. Rembast við að þyggja enga hjálp með strákinn minn fyrr en að ég var alveg komin í þrot. Rembast við að hreyfa mig eins og áður þrátt fyrir að líkaminn minn væri ekki tilbúinn. Rembast við að halda rútínu á mér og barninu sem var of vansælt til þess að höndla nokkurs konar reglu. Rembast við að sinna vinnu, námi og barni þegar fæðingarorlofið kláraðist. Sannfæra mig og aðra um að svona vildi ég hafa lífið.

Ég hélt þetta tempó út í tæplega hálft ár eftir fæðingarorlof og krassaði svo. Fékk tár í augun við tilhugsunina um að upplifa einn svona dag í viðbót. Fór í veikindaleyfi vegna streitu, skipti um umhverfi, sagði upp vinnunni og ákvað að svona myndi ég aldrei nokkurn tíman fara með líkamann minn aftur.

Þetta var mómentið þegar ég ákvað að vera með líkamanum mínum í liði í fyrsta sinn. Gera það sem hentaði mér á hverju tímabili fyrir sig í stað þess að lifa eftir sturluðu kröfunum í hausnum á mér. Eftir á að hyggja dásamlegasta tímabil sem ég hef upplifað þar sem einfaldleikinn réði ríkjum. Engin plön, engin dagskrá. Bara ég og strákurinn minn þá rúmlega 1 árs saman heima heilt sumar að borða góðan mat, leika okkur úti í náttúrunni, leggja okkur í hádeginu, kíkja í kaffi með góðu fólki þegar við vorum upplögð og í fyrsta sinn skyldi ég afhverju sumum líður vel í fæðingarorlofi.

Markmiðið var að ná streitunni niður en alveg óvart fór ég líka að finna meira fyrir líkamanum mínum með hverjum deginum sem leið. Fór að taka eftir því hvernig hann brást við ólíkum hreyfingum, hvað hann þoldi mismikið álag á milli daga, fór að tengja saman krefjandi daga við erfiðar hugsanir og líkamleg óþægindi og alveg ómeðvitað fór ég að endurhæfa líkamann minn. Þessi litla ákvörðun fyrr um vorið um að vera með sjálfri mér í liði varð til þess að í lok sumars var ég aftur orðin "ég". Kvíðahnúturinn farinn úr maganum, kökkurinn farinn úr hálsinum, líkaminn búinn að mýkjast og styrkjast.

Þetta var sumarið sem Hraust varð til og fyrstu drög að 9 mánaða endurhæfingunni okkar eftir fæðingu. Af því eftir að hafa upplifað þetta allt saman sjálf gat ég ekki hugsað mér að deila ekki öllu því sem ég hafði lært með öðrum mömmum í sömu sporum. Af því ef maður veit hvað það er sem maður á að fylgjast með þá er hægt að koma í veg fyrir svo mikið af seinni tíma vandamálum. Af því þetta snýst ekki um að byrja bara að hreyfa sig heldur að leyfa sér að hlusta.