Líkaminn á meðgöngu

Breytingar á líkama konu á meðgöngu eru margvíslegar og ein sú augljósasta er kúlan sem breytir þyngdarpunkti líkamans jafnóðum og hún stækkar. Líkaminn fer einnig að framleiða aukið magn af hormóninu relaxín sem hefur hvað mest áhrif á liðbönd í mjaðmagrindinni. Það sem kallað er grindarlos eða grindargliðnun er þess vegna algjörlega eðlilegt og leið líkamans til þess að greiða leiðina fyrir barnið út um fæðingarveginn. Það mætti því segja að allar óléttar konur fái grindarlos eða grindargliðnun, hvaða orð sem við viljum nota, en ekki allar konur fá grindarverki á meðgöngu. Það sem við heyrum oft hjá konum er greining um grindargliðnun þá í merkingunni grindarverkir en við viljum í þessum pistli hvetja ykkur til að gera greinamun þarna á.

 

Eitt af því sem hefur áhrif á verki frá mjaðmagrind er einmitt þessi breytti þyngdarpunktur en þegar kúlan stækkar og þyngist ýtir hún undir aukna fettu í mjóbaki. Það teygist líka á öllum kviðvöðvum og “six pack vöðvinn” (e. rectus abdominis) gliðnar við miðlínu. Þetta tog getur valdið því að konan finnur síður fyrir virkni í kviðvöðvum og margar konur eru líka hræddar við að reyna á kviðvöðvana á meðgöngu og fá jafnvel leiðbeiningar um að gera engar kviðæfingar. Það getur hins vegar verið mjög gagnlegt að viðhalda tengingu við dýpsta lag kviðvöðvanna til þess að vinna á móti þessari auknu bakfettu sem kúlan veldur. Kviðæfingar og kviðæfingar eru ekki það sama og við hvetjum allar óléttar konur til þess að leita sér aðstoðar fagfólks á meðgöngu til þess að læra viðeigandi æfingar sem setja ekki aukinn þrýsting á miðlínu kviðsins sem er að gliðna á tímabilinu. 


Hér sjáið þið myndband af Agnesi þar sem hún slakar alveg á og eykur fettuna í mjóbakinu, svo spennir hún djúpvöðvana og gerir fettuna í bakinu náttúrulegri. En eftir það spennir hún ennþá meira og nánast fletur út mjóbakið með því að spenna ennþá meira og virkja stærri yfirborðsvöðva en þá minnkar kúlan og það kemur aukinn þrýstingur á hrygginn og innri líffæri. 


Annað sem gerist á meðgöngunni er að það verður aukið álag á grindarbotninn. Eftir því sem kúlan (eða öllu heldur innihald hennar) þyngist verður meiri þrýstingur á grindarbotninn og þar af leiðandi meira álag fyrir hann að halda öllu uppi. Grindarbotnsvöðvarnir mynda “skál” í botninum á kviðarholinu og hlutverk þeirra er að opna og loka endaþarms-, legganga- og þvagrásaropi eftir því sem við á. Það getur gerst á meðgöngu að grindarbotninn ráði ekki við álagið og grindarholslíffæri fari að síga. Þá upplifir konan þrýsting eða þyngsli niður í grindarbotninn og stundum er hægt að finna með fingrunum sig á leghálsinum. Þvagleki eða áreynsluþvagleki getur komið fram við þessar aðstæður en líka bakverkir og grindarverkir. Það er líka eðlilegt að grindarbotninn bregðist við með því að fara ósjálfrátt að halda meiri spennu en hann þarf í tíma og ótíma. Þetta getur líka valdið bakverkjum, áreynsluþvagleka, grindarverkjum og rófubeinsverk.


Til þess að grindarbotninn starfi sem eðlilegast á meðgöngu er gott að:

-kunna að slaka vel á honum. Það hjálpar líka til í fæðingu að vera meðvituð um grindarbotninn en spenna er algengt viðbragð við verkjum og hræðslu og því heilmikið gagn í því að vera meðvituð um grindarbotninn og kunna að slaka á honum þegar kemur að fæðingunni sjálfri.

-kunna að spenna hann þegar við á. Þú gætir t.d. þurft í fyrsta sinn að hugsa um að spenna grindarbotninn áður en þú hnerrar eða hóstar, þegar þú hlærð eða stendur upp með eitthvað þungt í fanginu svo eitthvað sé nefnt.

-setjast eða leggjast niður þegar þú finnur fyrir þreytu, þvagleka, þyngslum eða vekjum í grindarbotninum. Þessi einkenni geta öll gefið til kynna þreytu eða ofálag á grindarbotni og þá er skynsamlegast að hlusta á líkamann og hvíla sig.