Hreyfing eftir meðgöngu

"Ég get ekki beðið eftir því að hætta að vera ólétt svo ég geti farið að hreyfa mig aftur eins og ég gerði" er setning sem ófáar konur láta út úr sér á síðasta þriðjungi meðgöngunnar. Að geta aftur svitnað í ræktinni, farið út að hlaupa eða lyft þyngdum án þess að finna til í mjaðmagrindinni.

Skiljanlega. Hugurinn helst óbreyttur þó líkaminn haldi ekki lengur í við hann. 

En níu mánuðir af meðgöngu og fæðing í kjölfarið tekur sinn toll á líkamanum. Oft á tíðum stendur eftir mýkri og vöðvarýrari líkami. Sumir vöðvar ekki alveg í sambandi, aðrir orðnir stífir, mjaðmagrindin aðeins snúin og rassinn bara helmingurinn af því sem hann var. Líkaminn fer að kvarta við einföldustu æfingar og konur standa eftir gáttaðar yfir því að ráða ekki almennilega við fyrri hreyfingu. Barnið löngu komið í heiminn en líkaminn ekki ennþá orðinn eins og hann var.

Það sem fæstar konur vilja heyra er að það getur tekið líkamann upp undir ár og jafnvel lengur að komast aftur inn í fyrra jafnvægi. Og í raun ætti að líta á þann tíma sem hálfgert endurhæfingartímabil eftir meðgönguna og fæðinguna. 

Fyrstu mánuðina skiptir miklu máli að mæta líkamanum af forvitni, taka eftir því hvernig hann bregst við hreyfingu og að vinna stöðugt í því að styrkja grunninn. Ná aftur sambandi við djúpvöðvakerfið og fylgjast með því hvernig það bregst við æfingaálagi, liðka það sem varð stíft, styrkja vöðvana sem rýrnuðu. Koma líkamanum inn í aukið jafnvægi svo hann sé tilbúnari í þá hreyfingu sem er á óskalistanum.

Á þessum tíma er líka mikilvægt að huga að því að fara ekki fram úr sér. Taka það með í reikninginn að konur í fæðingarorlofi eru oft á tíðum illa sofnar og undir meira álagi en vanalega og endurheimtin eftir æfingar í takt við það. Fyrstu mánuðina líður konum því oft betur í rólegri hreyfingu frekar en í of miklu púli sem á það til að verða að enn einum streituvaldinum í lífi illa sofinnar ungbarnamóður.

Hreyfing á að auka hjá þér vellíðan, byggja þig upp og auðvelda þér daglegt amstur með litla barninu sem þarf svo mikið á þér að halda. Hreyfing á ekki að vera refsing fyrir að vera orðin þyngri, mýkri eða í verra formi.

 

Líkaminn gekk í gegnum ýmislegt til þess að koma þessari litlu manneskju í heiminn. Þetta er ekkert kapphlaup. Núna er rétti tíminn til þess að hlúa vel að þér.