3 skref út úr streituvítahring

Undanfarnar vikur gerði ég lítið annað en að elta skottið á sjálfri mér. Heiðarlegar tilraunir til þess að stýra álaginu í lífinu fóru fyrir bí með enn annarri flensunni sem herjaði á fjölskylduna með tilheyrandi svefnlitlum nóttum og ómögulegheitum.

Á einhverjum tímapunkti var eins og líkamsskynjunin hefði dofnað. Streitukerfið tók yfir líkamann með eitt fyrir augunum: Komast í gegnum þetta tímabil á lífi. Leysa verkefni og vera vel á varðbergi fyrir öllu sem gæti farið úrskeiðis hjá sjálfri mér og öðrum. Og án þess að ég tæki mikið eftir því á þeirri stundu fór líkaminn að stífna upp og verða aumur, kvíðinn, sjálfsgagrýninn og alltaf í viðbragðsstöðu. 

Ég rankaði við mér í miðjum stormsveipnum og sá ekki hvernig mér ætti að takast að vinda ofan af mér ennþá með veikt barn heima. Mig vantaði bara einhverja leið til þess að komast út úr þessu tempói og greip mig í tíma og ótíma við að skrolla í gegnum fasteignavefinn og að þrá það að komast í vinnu sem kræfist ekki svona mikils af mér. Kannski lægi hamingjan í húsnæði með garði eða á öðrum vinnustað.

En ég mundi svo eftir því að svona líður mér alltaf þegar lífið er búið að vera of mikið í einhvern tíma og ég hef ekki gefið mér mínútu til þess að sinna sjálfri mér. Líklega þyrfti ekki flutninga í miðju streituástandi til þess að láta mér líða betur og yfirkeyrður heilinn ekki í neinu ástandi til þess að taka stórar ákvarðanir. Ég gæti tekið minni og raunhæfari skref í áttina að betri líðan.

Ég fletti í gegnum dagbókina mína og leitaði að hernaðaráætluninni sem ég hafði hripað niður í fæðingarundirbúningnum á síðasta ári til þess að bjarga mér á nákvæmlega svona mómentum.

  1. Þekkja streitueinkennin og streituhugsanirnar. Líkaminn minn lætur mig vita að ég sé komin yfir mörkin mín með stífleika, bakverkjum og orkuleysi, kvíða fyrir minnstu hlutum, einbeitingarörðugleikum, sjálfsniðurrifi og flóttahugsunum.

  2. Færa fókusinn yfir á þakklæti. Þakka fyrir að vera í líkama sem hreyfir sig fyrir mig alla daga og gekk með litlu strákana mína. Þakka fyrir að geta unnið við það sem ég brenn fyrir. Þakka fyrir að eiga heimili sem vefur armana utan um mig. Þakka fyrir að hafa gott fólk í kringum mig.

  3. Renna yfir vellíðunarlistann minn. Hvað er það sem lætur mér alltaf líða aðeins betur og gerir mér kleift að vera sú manneskja sem mig langar að vera. Í mínu tilviki er það t.d. að fá góðan nætursvefn, fara ein í sund, hlusta á podcast, heyra í góðri vinkonu, elda mat í rólegheitum, fara út í göngutúr eða leggja snjallsímann á hilluna. Byrja bara á einu atriði og sjá hvað gerist.

 
Og viti menn. Strax eftir að hafa viðurkennt aðstæðurnar, fært fókusinn meðvitað yfir á jákvæð atriði í mínu lífi og gert eitt atriði á listanum leið mér aðeins betur. Sem hvatti mig svo áfram til þess að gera annað atriði á listanum sem lét mér líða ennþá betur. Í lok vikunnar var ég farin að gera nokkur atriði á listanum daglega án þess að hafa fyrir því og líðanin ekki sambærileg því sem var.

Lífið hjá mér verður líklega ekki rólegt í náinni framtíð með fjölskyldu, fyrirtæki og húsnæðisafborganir EN ég hef stjórn á því hvernig ég ráðstafa tímanum mínum og hvort ég láti sjálfa mig eða aðra hluti ganga fyrir. Ég er vissulega búin að sækja hrein föt úr ört stækkandi þvottahrúgunni á kommóðunni og ýta til hliðar skítugum diskum á eldhúsborðinu áður en við setjumst niður til þess að borða en líðanin á heimilinu er aftur orðin góð - því við erum að ráðstafa tímanum í það sem skiptir mestu máli fyrir okkur akkúrat núna.